Er rammaáætlun lokið?

Erfiðlega hefur gengið að ná grænum raforkuverkefnum í gegnum opinbert samþykktarferli á Íslandi, m.a. rammaáætlun, þ.e. Lög um verndar- og orkunýtingaráætlun nr. 48/2011.  Þegar þriðja rammaáætlun er skoðuð kemur í ljós að 9 verkefni sem loks fengu afgreiðslu rammaáætlunar höfðu verið þar til umfjöllunar í  23 ár. 

Fyrir þau verkefni sem þó fara í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, sem var um þriðjungur í þriðju rammaáætlun, á enn eftir að vinna mat á umhverfisáhrifum sem tekið getur 2-4 ár með viðamiklum rannsóknum á áhrifum verkefnisins á umhverfið. Þar við bætist 3ja til 5 ára byggingartími.  Heildarvinnslutími grænna raforkuverkefna, frá tilkynningu til rammaáætlunar þar til raforka tekur að streyma frá orkuveri getur því verið allt að 32 ár.  Er það ásættanlegt?  Er það þjóðhagslega hagkvæmt?

Umhverfisrannsóknirnar sem krafist er eru orðnar svo viðamiklar sem fara þarf í eftir að verkefni hljóta afgreiðslu rammaáætlunar, sem bætist við kostnað og rannsóknir vegna rammaáætlunar, að kostnaður getur verið allt að 300 milljónir króna fyrir hvert verkefni. Það segir sig sjálft að því hærri sem rannsóknar og byggingarkostnaður er því dýrari verður raforkan til neytenda.  Framtíðar hækkun raforkuverðs ætti því ekki að koma á óvart enda er hún bein afleiðing af rannsóknar og byggingarkostnaði.

Fótspor friðunar vs orkugeirans
Mörg græn raforkuverkefni hafa verið sett í verndarflokk rammaáætlunar.  Þar við bætist að stór landssvæði hafa verið friðlýst utan við rammaáætlun, en friðlýsing útilokar almennt virkjun raforku á þeim svæðum.

Nú er svo komið að friðlýst svæði nema um 23.533 ferkílómetrum (km2) (heimild: Umhverfisstofnun) eða um 23% af heildarlandsvæði Íslands. Til samanburðar þá er heildarlandnotkun alls raforkugeirans þar með talið öll uppistöðulón, orkuver, vegir og háspennulínur, um 618 ferkílómetrar (km2) eða um 0.6% af heildarlandsvæði Íslands, (heimild: Landsvirkjun), sjá mynd.

Miðað við þetta má álykta að ef framleiðslugeta raforkugeirans væri þrefölduð að stærð þá má áætla að landfæðilegt fótspor hans yrði innan við 2% af heildarlandmassa Íslands.  Er það mikið í samaburði við 23% friðlýstra svæða?

Niðurlag

Hvenær er búið að friða nóg af landinu?  Áframhaldandi friðun lands þar sem framleiðsla grænnar raforku er bönnuð mun verulega takmarka möguleika komandi kynslóða til að afla sér grænnar raforku. Seinagangur í leyfisveitingu grænna raforkuverkefna, sem getur numið áratugum, og kostnaðarsamar rannsóknir rýra samkeppnishæfni grænnar raforku.  Það ástand getur því skapast að komandi kynslóðir séu þannig dæmdar til að nýta aðra skítugri orkukosti til raforkuvinnslu sem vinna gegn markmiðum Íslands í loftslagsmálum.

Þó raforkugeirinn væri þrefaldaður að stærð þá má ætla að heildar landfræðilegt fótspor yrði innan við 2% sem er langt innan við hlutfall friðaðra svæða í dag.

Hefur rammaáætlun náð markmiðum sínum? Er búið að friða nóg af landinu nú þegar?  Er tími til kominn að leggja niður rammaáætlun?

Leave a comment