Er sæstrengur lausnin?

Raforkuöryggi er þjóðaröryggi.  Eldgosið í Meradölum hefur undirstrikað mikilvægi raforkumála sem mikilvægan þátt í þjóðaröryggi Íslands.  Afhendingaröryggi raforku til íbúa á Reykjanesi þarf skoðunar við.  Hvað gerist ef jarðhræringar verða þess valdandi að raforkuverið í Svartsengi verður óstarfhæft og á sama tíma verður útilokað að afhenda raforku til íbúa á Reykjanesi frá öðrum orkuverum í gegnum háspennulínur á svæðinu s.s. Suðurnesjalínu 1?

Íbúar Reykjaness eru í kringum 28 þúsund, eða um 8% þjóðarinnar, svo ekki sé minnst á alþjóðaflugvöll landsmanna, Keflavíkurflugvöll, þannig að ljóst er að miklir hagsmunir liggja undir.

Sæstrengur milli landshluta
Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til að dreifa áhættunni svo ekki fari illa.

Hægt er að styrkja raforkuöryggið á Reykjanesi m.a. með tvennum hætti.  Annars vegar með dísel rafstöðvum sem framleiða raforku með því að brenna díselolíu.  Fljótt á litið er það ekki ásættanleg lausn ef miðað er við markmið Íslands í loftslagsmálum enda sótspor díselraforku mun hærra en grænnar raforku. 

Önnur hugmynd, er að tryggja raforkuöryggi með sæstreng milli landshluta til dæmis frá svæðum þar sem hætta á eldgosum er ekki til staðar. 

Þannig gæti ein lausnin verið að taka sæstreng frá tengivirkinu á Brennimel í Hvalfirði (220 kV) og koma honum á land að Fitjum sem er um 62 km löng leið.  Önnur lausn gæti verið að taka sæstreng frá Hamranesi, við Hafnarfjörð, sem kæmi á land að Fitjum, sem er um 31.5 km löng leið (þar af um 3 km á landi).  Báðar þessar lausnir tengjast inn á 220 kV háspennukerfi Landsnets.

Tillögur að sæstreng milli landshluta. (heimild: Landsnet)



Fordæmi
Fordæmi fyrir sæstrengjum milli landshluta er t.d. að finna hjá nágrönnum okkar Bretum.  Vegna mikils framboðs á vindorku af hafi utan við strendur Skotlands og erfiðleika við leyfisveitingaferil háspennulína á landi þá hefur National Grid ESO sem er stjórnandi háspennukerfis Bretlandseyja sett tvo sæstrengi (2 GW hvor) á kerfisáætlun.  Annar sæstrengurinn verður milli Peterhead og Drax og hinn sæstrengurinn verður milli Peterhead og South Humber (heimild: NGESO NOA).

Við Íslendingar eigum okkar fordæmi einnig en nýr 66 kV, 13 km langur sæstrengur milli lands og Vestmannaeyja var tekinn í notkun 2013. 

 
Ekki er ráð nema í tíma sé tekið
Illa hefur gengið að koma nýjum raforkuinnviðum í gegnum leyfisveitingaferlið á Íslandi, jafnvel áratugi, og við það bætist langur byggingartími, um 2-4 ár.  Suðurnesjalína 2 hefur enn ekki komist í gegnum leyfisveitingaferlið þrátt fyrir tilraunir í um 10 ár.  Áætla má að kostnaður þjóðfélagsins vegna tafa í uppbyggingu raforkuinnviða geti numið um 6 milljörðum á ári samkvæmt forstjóra Landsnets (Vísir 3.12.2014). Kostnaður samfélagsins af töfum á uppbyggingu Suðurnesjalínu 2 eru því umtalsverðar nú þegar og skerðir atvinnuuppbyggingu í landshlutanum.

Án raforku hætta samskiptakerfi að virka, hiti og ljós dettur út og mikilvæg og jafnvel lífsnauðsynleg tæki stöðvast.  Slíkt ástand getur ógnað þjóðaröryggi.  Án raforku verða samfélög óvirk eins og dæmin sanna t.d. þegar rafmagn fór af norður í landi veturinn 2019 og skip Landhelgisgæslunnar þurfti til að koma lágmarksraforkuöryggi til Dalvíkur. Sem betur fer urðu engin dauðsföll í það skiptið en dæmi frá Texas bendir til að raforkuskortur getur verið dauðans alvara en raforkuskortur þar árið 2021 kostaði um 111 manns lífið.

Niðurlag
Raforkumál eru þjóðaröryggismál.  Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.  Dæmin sýna að langan tíma tekur að koma nýjum raforkuinnviðum í gegnum leyfisveitingaferilinn á Íslandi, jafnvel áratugi, og við það bætist langur byggingartími, um 3-5 ár. 

Huga þarf að styrkingu raforkukerfisins á Reykjanesi strax.  Dreifa þarf áhættunni og ein leið til að bæta afhendingaröryggi íbúanna umtalsvert er sæstrengur milli landssvæða.

Leave a comment