Ástæða hærra raforkuverðs í Evrópu

Fjallað hefur verið um hækkun raforkuverðs í Evrópu undanfarið og ástæðan sögð vera þriðji orkupakki Evrópubandalagsins.  Slíkt er alrangt og nauðsynlegt að leiðrétta þann misskilning.

Verð á gasi til raforkuframleiðslu í hæstu hæðum

Vegna óróa á mörkuðum m.a. vegna stríðsátaka sem hófust þann 24. febrúar síðastliðinn í Úkraínu hefur raforkuverð í Evrópu og Bretlandi hækkað umtalsvert.

Ástæða þess að raforkuverð hefur farið hækkandi í þessum löndum er sú að þessi ríki reiða sig á gas (Natural Gas) til framleiðslu á stórum hluta rafmagns síns og einnig til húshitunar.

Verð á gasi hefur rokið upp.  Fyrst vegna væntinga um neikvæð áhrif vegna mögulegs stríðs  og svo þegar stríðið hófst vegna væntra neikvæðra áhrifa af stríðinu sjálfu. Verð á gasi er nú í hæstu hæðum. 

Eins og sjá má á mynd 1 þá hefur gasverð í Bretlandi hækkað úr 40 pensum þann 22. febrúar 2021 í 526 pens þann 22. ágúst 2022, eða um 1.315%. Svipaða sögu má segja frá öðrum Evrópulöndum þó hækkunin sé minni.

Mynd 1 Verð á gasi í Bretlandi undanfarin 5 ár

Til að setja þessar hækkanir í samhengi þá framleiðir Bretland allt að 56% raforku sinnar með gasi, en það sveiflast þó miðað við framboð á vindorku á hverjum tíma.  Hækkun á gasverði skiptir því verulegu máli fyrir breta, jafnt almenning sem og fyrirtæki.

Mynd 2. Hlutfall raforku framleidd með gasi er allt að 56.68% (heimild: electricinsights.co.uk)

Spá um verð á gasi í vetur

Samkvæmt upplýsingum frá Trading Economics er því spáð að verð á gasi í Bretlandi hækki enn meira og fari upp í 766 pens í lok árs, sjá mynd 3.

Mynd 3  Væntingar markaðarins um verð á gasi í lok árs 2022

Staða Íslands

Ísland stendur vel að vígi sem stendur og er það ekki síst því að þakka að tekist hefur að nýta græna raforku íslendingum til heilla.  Erfiðlega hefur þó gengið að koma grænorkuverkefnum í gegum leyfisveitingaferilinn á Íslandi sem er verulegt áhyggjuefni.

Um 99,96% raforku á Íslandi var árið 2021 framleidd með endurnýjanlegri raforku (heimild: Orkustofnun), hlutfall sem er umtalsvert hærra en í mörgum nágrannalöndum okkar.

Niðurlag

Þegar verð á hráefni því sem notað er til framleiðslu á vöru hækkar um ríflega 1000 prósent þá er ekki nema von að verð á vörunni hækki til samræmis.  Þetta er tilfellið þegar kemur að raforku og húshitunarkostnaði í Evrópu og Bretlandi þessa stundina.

Þessar tölur sýna svart á hvítu að orsakir hás orkuverðs í Evrópu og Bretlandi er hækkun á verði á gasi sem notað er til húshitunar og raforkuframleiðslu.  Mikill misskilningur er að halda að skýringuna sé að finna í orkupakka EB eða afleiðingum af innleiðingu orkupakkans og að ástæða þess að raforkuverð hækki ekki á Íslandi líkt og í nágrannalöndum okkar sé vegna þess að landið er ekki tengt öðrum mörkuðum með sæstreng.  Það er fjarri sanni. 

Aðalástæða þess að íslendingar sjá ekki viðlíka hækkanir hér er hátt hlutfall grænnar raforku sem framleidd er án þess að nota þurfi gas til framleiðslunnar.  Þriðji orkupakkinn eða sæstrengur er ekki orsökin.

Leave a comment