Raforkumál eru þjóðaröryggismál

Um 90% af raforkuframleiðslu Íslands er staðsett innan við  45 kílómetra frá eldfjöllum landsins, við plötuskil meginlandsflekanna tveggja, Norður Ameríku og Evrópu flekanna.  Mörg stór orkuver eru mun nær en það.

Eldgosið í Meradölum hefur undirstrikað mikilvægi raforkumála sem mikilvægan þátt í þjóðaröryggi Íslands.  Orkuverið í Svartsengi er í um 10 km fjarlægð frá nýjustu sprungunni sem opnaðist 3. ágúst síðastliðinn og rætt hefur verið um að innviðir liggi mögulega undir hættu á skemmdum.  Svartsengi framleiðir raforku og heitt vatn fyrir um 28 þúsund íbúa, eða um 8% þjóðarinnar, svo ekki sé minnst á alþjóðaflugvöll landsmanna, Keflavíkurflugvöll, þannig að ljóst er að það liggja miklir hagsmunir undir.

Svartsengi er í um 10 km fjarlægð frá eldgosinu í Meradölum

Dreifa áhættunni – vindorka og raforkustrengur

Spurningin er hvort ekki sé kominn tími til að dreifa áhættunni svo ekki fari illa.

Hægt er að styrkja raforkuöryggið til dæmis með tvennum hætti.  Í fyrsta lagi að fjölga raforkuverum og dreifa nýjum orkuverum um landið með sérstakri áherslu á að byggja verkefnin á landsvæðum utan við svokölluð virk eldfjallasvæði.  Vindorkan hentar einstaklega vel til þess.  Raforka framleidd með jarðvarma og vatnsafli þarf að byggja þar sem frumorkuna er að finna, þ.e. þar sem jarðhitann og vatnsaflið er að finna.  Vindorkan þarf vissulega að vera staðsett þar sem vindinn er að finna en hann finnst mun víðar og hægt að staðsetja vindorkuver á köldum svæðum, langt frá hættu á jarðhræringum og með því styrkja raforkuöryggi umtalsvert.

Í öðru lagi er hægt að tryggja raforkuöryggi með raforkustreng til annarra landa, landa sem staðsett eru á svæðum þar sem hætta á eldgosum er ekki til staðar.  Með tengingu landsins við önnur framleiðslusvæði raforku þá er hægt að dreifa áhættunni af jarðhræringum á Íslandi.    Tenging raforkustrengs til annarra landa mun því styrkja verulega raforkuöryggi þjóðarinnar.

Niðurlag

Raforkumál eru þjóðaröryggismál.  Dæmin sýna að langan tíma tekur að koma nýjum raforkuverkefnum í gegnum leyfisveitingaferilinn á Íslandi, jafnvel áratugi, og við það bætist langur byggingartími, um 3-5 ár.  Er ekki tími til kominn að þjóðin hugi að því að dreifa áhættunni af rekstri raforkukerfisins áður en áföllin ríða yfir?  Er skynsamlegt að gera svo lítið að til vandræða stefnir og þurfa svo að grípa til skyndiaðgerða eftir að áföllin hafa riðið yfir með tilheyrandi biðtíma eftir byggingu grænna raforkuverkefna og neyðast jafnvel til að keyra sótspors mengandi diesel rafstöðvar á meðan?  Þjónar það markmiðum Íslands í loftslagsmálum?

Leave a comment