Rammaáætlun fyrir vindorku óþörf og skaðleg?

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur sett á fót nefnd sem skila á frumvarpi til laga næstkomandi febrúar (2023) um rammaáætlun fyrir vindorku.

Frumvarpinu er ætlað að færa samþykki vindorkuverkefna undir rammaáætlun og staðfestir þannig þá skoðun að vindorka fellur ekki undir núverandi rammaáætlun.

Við þetta vaknar sú spurning, er þörf á því að setja rammaáætlun um vindorku? 

Rammaáætlun óþörf og vinnur gegn raforkulögum og samkeppnislögum

Við nánari skoðun þá virðist rammaáætlun vera óþörf því önnur lög sem gilda nú þegar um sama mál taka á öllu því sem rammaáætlun fjallar um, eins og undirritaður fjallaði um í grein sem birtist í Morgunblaðinu 12. nóvember 2021. 

Engin önnur starfsgrein í landinu þarf að búa við tvöfalt lagaumhverfi sem í raun gerir sama hlutinn.  Þetta tvöfalda kerfi gengur gegn markmiði raforkulaga sem stuðla eiga að „…þjóðhagslega hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu.“ og samkeppnislaga sem hafa það að markmiði að „…efla virka samkeppni í viðskiptum og þar með vinna að hagkvæmri nýtingu framleiðsluþátta þjóðfélagsins.  Markmiði þessu skal ná með því að:  a) vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á frelsi í atvinnurekstri.  b) vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum.  c) auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila á markaðnum.  d) stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.“

Það tvöfalda kerfi sem nú gildir gerir uppbyggingu nýrra raforkuverkefna mjög erfiða, kostnaðarsama og tímafreka.  Í slíku umhverfi er það einungis á færi stórfyrirtækja eða ríkisins að koma verkefnum í gegnum þetta tvöfalda kerfi. Slík viðskiptahindrun hindrar aðgang nýrra aðila að markaðinum sem takmarkar samkeppni og framboð og stuðlar þannig að óheilbrigðu fákeppnisumhverfi. Þannig vinnur rammaáætlun gegn raforku- og samkeppnislögum.

Verkefni sem nú falla undir rammaáætlun eru flokkuð í þrjá flokka. Athyglisvert er að tveir flokkar stöðva verkefni en einn flokkur færir verkefni í heimild til virkjunar. Þó er ekki víst að verkefni sem fá heimild til virkjunar verði virkjuð því enn þarf verkefnið að komast í gegnum nálaraugað sem önnur lög, s.s. lög um umhverfismat, kveða á um.

Þess má geta að óskilvirkni rammaáætlunar hefur valdið því að ný verkefni í raforku fást ekki samþykkt svo árum skiptir. Auðveldlega má líta á þá stöðu sem alvarlega viðskiptahindrun sem heftir framboð á raforku sem aftur getur leitt til hærra raforkuverðs til neytenda vegna ónógs framboðs.

Orkugeirinn skapar ný hálaunastörf á landsbyggðinni

Að síðustu má benda á að Ísland þarf að skapa um 80.000 ný störf á næstu 10 árum.  Stærstu atvinnugreinar landsins eru sveiflukenndar eins og dæmin sanna undanfarin ár.  Eitt einkenna orkugeirans er stöðugleiki og má nefna að orkugeirinn greiðir næst hæstu launin að meðaltali samkvæmt Hagstofu Íslands. 

Ný störf krefjast raforku og erfitt að sjá hvernig skapa á ný störf án þess að framleiða meira rafmagn.  Vindorka hefur minnstu umhverfisáhrifin og er því kjörinn kostur á Íslandi. Á sama tíma veldur samdráttur í landbúnaði því að störfum á landsbyggðinni fækkar ár frá ári.  Orkuverkefni eru landsbyggðarverkefni sem skapa hálaunastörf og auka stöðugleika í byggðum landsins.

Niðurlag

Einfalda verður samþykktarkerfi orkuverkefna svo ná megi markmiðum raforku- og samkeppnislaga og tryggja neytendum næga raforku á hagstæðu samkeppnisverði. Það verður best gert með afnámi íþyngjandi laga og reglna, s.s. rammaáætlunar, sem vinna gegn almannahagsmunum.

Leave a comment