Raforkuinnviðir varða þjóðaröryggi

Erfiðlega hefur reynst fyrir Landsnet að fá framkvæmdaleyfi vegna Suðurnesjalínu 2 og hefur Sveitarfélagið Vogar og umhverfissamtök staðið í veginum og setti með þeim hætti raforkuöryggi Suðunesjamanna í uppnám. Tafir á byggingu línunnar eru að nálgast 10 ár. Áætla má að kostnaður þjóðfélagsins vegna tafa í uppbyggingu raforkuinnviða geti numið um 6 milljörðum á ári samkvæmt forstjóra Landsnets (Vísir 3.12.2014). Kostnaður samfélagsins af töfum á uppbyggingu Suðurnesjalínu 2 er því umtalsverður.

Raforkuinnviðir eru mikilvægir hverju samfélagi. Raforka er ein grunnstoða samfélagsins og fátt gerist í nútímasamfélagi án raforku. Án raforku skapast ástand samskiptaleysis ásamt skorti á  hita og ljósi og mikilvæg og jafnvel lífsnauðsynleg tæki stoppa. Slíkt ástand getur ógnað þjóðaröryggi.  Án raforku verða samfélög óvirk eins og dæmin sanna t.d. þegar rafmagn fór af norður í landi veturinn 2019 og skip Landhelgisgæslunnar þurfti til að koma lágmarksraforkuöryggi til Dalvíkur. Sem betur fer urðu engin dauðsföll í það skiptið en nýlegt dæmi frá Texas bendir til að raforkuskortur getur verið dauðans alvara en í febrúar á þessu ári varð þar raforkuskortur og 111 manns létu lífið.

Raforkuinnviði, eins og flutningskerfi Landsnets, er því auðveldlega hægt að skilgreina sem hluta af þjóðaröryggi Íslands.  Slík skilgreining ætti að færa málsmeðferð opinberra aðila á uppbyggingu raforkuinnviða á annað plan og veita slíkum verkefnum flýtimeðferð í gegnum samþykktarferli og verja slík verkefni fyrir árásum frá mótmælendum sem hafa fagurfræðileg gildi að leiðarljósi eða önnur álíka rök fyrir kærum sínum til dómsstóla sem geta tafið verkefni um fjölda ára.

Samkvæmt manntalsupplýsingum frá Hagstofnunni þá þarf Ísland að skapa ríflega 50.000 ný störf á næstu 10 árum.  Ný störf krefjast raforku og erfitt að sjá hvernig skapa á ný störf án þess að framleiða meira rafmagn og tryggja flutning þess um landið án styrkra innviða. 

Uppbygging raforkuinnviða varðar við þjóðaröryggi þessa lands og flýtimeðferð á samþykktarferli og hröð uppbygging tryggir öryggi og er þjóðhagslega hagkvæmt.

Leave a comment