Dreift eignarhald raforkuinnviða?

National Grid ESO (NGESO) er rekstraraðili háspennukerfis Bretlandseyja og gegnir sama hlutverki og Landsnet hér heima sem nýlega var yfirtekið og er nú í eigu ríkisins.  NGESO er hins vegar í eigu National Grid plc sem er almenningshlutafélag í dreifðri eigu sjóða og einstaklinga.

Einokunarreglur tryggja neytendur

Þrátt fyrir að vera ekki í eigu ríkisins er NGESO í einokunarstöðu um rekstur háspennukerfisins.  Ýmsir gætu haldið að slíkt væri ekki ráðlegt því hætta er á að félagið okri á neytendum en það er leyst með ströngum reglum m.a. um hve mikinn hagnað félagið má skila á ársgrundvelli.  Í nýlegum ársreikningi kemur fram að leyfilegur hagnaður félagsins í Bretlandi er 4.25% miðað við 55% gírun (lánsfjárhlutfall) árin 2021 til 2026.

Dreift eignarhald


Samkvæmt Market Screener eru 10 stærstu eigendur félagsins sjóðir sem hver um sig á innan við 4% í félaginu, sá stærsti (19. júlí 2022) með 3.82% og sá tíundi stærsti með 1.52%.

Þjónusta við framleiðendur og neytendur góð

Fagleg vinnubrögð NGESO eru til fyrirmyndar og framgangur sterkur í styrkingu og byggingu háspennukerfisins til að sinna sem best þjónustu við raforkuframleiðendur og neytendur.  NGESO setur fram langtímaáætlun, Network Options Assessment (NOA) sem endurskoðuð er reglulega þar sem m.a. lögð eru drög að uppbyggingu og styrkingu háspennukerfisins og lausn á flöskuhálsum milli landssvæða. 

Sæstrengur til styrkingar kerfisins

Sem dæmi má nefna að tekin hefur verið ákvörðun um byggingu tveggja háspennu (HVDC) sæstrengja, 2 GW að stærð hvor, frá (a) Peterhead í Skotlandi til Drax í Englandi  annars vegar og svo (b) frá Peterhead til South Humber hins vegar, sem bæta flutning raforku milli þessara svæða. 

Getum við lært af nágrönnum okkar?

Hver er framtíð raforkukerfis Íslands?  Þurfum við að byggja á reynslu undanfarinna ára varðandi ákvarðanir framtíðarinnar og breyta til?  Er hægt að halda áfram á sömu braut og ná fram fullnægjandi þjónustu við framleiðendur og neytendur?

Leave a comment