Er hægt að stýra sölu raforkunnar vegna loftslagsmarkmiða?

Undanfarið hefur borið á þeirri skoðun í fjölmiðlum að nauðsynlegt sé að stýra því í hvað raforka fer á Íslandi. Rætt hefur verið í þessu sambandi að mikilvægt sé að stýra raforkunni inn í orkuskiptin og jafnvel að einstaka viðskiptavinir séu óæskilegir, s.s. stór iðnfyrirtæki eða rafmyntafyrirtæki.

Við lestur slíkra fullyrðinga vaknar sú spurning, er þetta mögulegt?

Hér að neðan verða reifuð rök fyrir því hvers vegna svo er alls ekki sjálfsagt.

1.      Samkeppnislög, nr. 44/2005, kveða skýrt á um frjálsa samkeppni en markmið laganna er að:

a.      vinna gegn óhæfilegum hindrunum og takmörkunum á atvinnurekstri,

b.     vinna gegn skaðlegri fákeppni og samkeppnishömlum,

c.      auðvelda aðgang nýrra samkeppnisaðila að markaðnum,

d.     stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.

2.      Raforkulög, nr. 65/2003, eru skýr hvað þetta mál varðar en markmið þeirra er m.a. að skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum með raforku.

3.      Lög um opinber innkaup, nr. 120/2016 kveða á um jafnræði fyrirtækja en markmið laganna er „…að tryggj jafnræði fyrirtækja, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni…“

4.      „Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka verðmæti þeirrar endurnýjanlegu orkulinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir,…“ (Heimild: Landsvirkjun). Landsvirkjun þarf því að selja raforkuna hæstbjóðanda. 

5.      Heyrst hefur það sjónarmið að eigandinn, þ.e. ríkissjóður, geti sett Landsvirkjun takmarkanir í gegnum eigendastefnu sem kveða myndu á um að öllum öðrum sjónarmiðum jöfnum þ.e. þegar um sama verð er að ræða, þá sé félaginu leyfilegt og skylt að velja viðskiptavin sem styður við markmið stjórnvalda í loftslagsmálum, t.d. framleiðanda rafeldsneytis. Er mögulegt að upp komi sú staða að tveir aðilar séu tilbúnir til að borga sama verð fyrir vöruna og ef svo er er sölukerfi félagsins þá að skila hámarksverði? 

6.      Ef Landsvirkjun verður þvinguð til að nota önnur atriði en hæsta verð við sölu raforkunnar getur fyrirtækið verið berskjaldað fyrir mögulegum skaðabótakröfum frá kaupendum sem sitja eftir með sárt ennið. Áhættustjórnun er eitt stærsta verkefni allra stjórnenda sem reyna að forðast að aðgerðir fyrirtækisins skapi fyrirtækinu skaðabótakröfu.

7.      Önnur sjónarmið koma einnig til skoðunar. Mikilvægt er að seljandi velji kaupanda sem hefur greiðslugetu, að kaupandinn sé „bankable“ eins og sagt er. Í þessu felst að kaupandinn verður að hafa fjárhagslega burði til að greiða fyrir raforkuna og geta sett fram fjárhagslegar tryggingar fyrir kaupsamningnum. Að öðrum kosti getur það haft þær afleiðingar að framleiðandinn geti ekki virkjað því lánveitendur telji sölu raforkunnar ekki nægilega vel tryggða.

Stjórnvöld þurfa að hugsa sig vel um ef setja á lög sem stýra eiga raforkusölu. Gengur slík miðstýring gegn öðrum lögum, er hægt eða æskilegt að stýra raforku á samkeppnismarkaði með þeim hætti?

Leave a comment