Er hægt að fanga vindinn?

Vegna ágreinings um það hvort vindorka fellur undir lög nr 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (Rammaáætlun) hefur Storm Orka sætt órétti í leyfisveitingaferli vegna vindlundar félagsins. Stofnanir hafa brotið lög um málshraða og tafið afgreiðslu einstakra erinda í tugi mánaða, stjórnsýsla sem er þeim ekki til sóma.

Þannig hefur vindlundur félagsins verið tafinn um 5 ár nú þegar með verulegum kostnaði. Stefnt var að framleiðslu á grænni og endurnýjanlegri raforku árið 2021. Ef það hefði gengið eftir þá hefði Landsvirkjun ekki þurft að skerða raforku til sinna viðskiptavina sem skiptu yfir í díselolíu og þurrkuðu út allan ávinning af rafbílavæðingu frá upphafi.[1]

Ágreiningurinn byggir á einu lagaáliti frá Landslögum sem unnið var 19. janúar 2015. Í stuttu máli þá kemur fram í áliti Landslaga að túlka megi vilja iðnaðanefndar Alþingis þannig að lögin nái yfir vindorku. 

Þessi lagatúlkun Landslaga hefur sætt gagnrýni og fyrir liggja álit Orkustofnunar og 2 lögfræðiálit, Lex lögmannsstofu og LOGOS, þeirrar skoðunar að vindurinn sé ekki hluti rammaáætlunar.  Fram kemur í áliti LOGOS að lögin verði að vera skýr til að tryggja takmarkanir á stjórnarskrárvörðum réttindum, eða eins og segir í álitinu:

Það er niðurstaða okkar að þar sem túlkunin varðar stjórnaskrárvarinn réttindi, hinn meinti löggjafarvilji skilaði sér ekki með beinum hætti í lagatextann, og þar sem umfjöllun laganna virðist alfarið varða aðra virkjunarkosti, þá leiði hefðbundin lögskýringarsjónarmið til þess að lögin taki ekki með nægilega skýrum hætti yfir virkjun vindorku.

Til frekari rökstuðnings þá er mikilvægt að þetta túlkunaratriði laganna sé í samræmi við ákvæði stjórnarskrár um eignarréttindi í 72. gr. og atvinnufrelsi í 75. gr. Ef það er vilji löggjafans að lögin eigi að ná yfir virkjunarkosti í vindorku er nauðsynlegt að það komi skýrt fram í lögum til að tryggja að þær takmarkanir sem löggjöfin hefur í för með sér samræmist ákvæðum stjórnarskrár.“[3]

Því til viðbótar tók Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) ekki undir þann málflutning að vindurinn eigi að fara í rammaáætlun í úrskurði[2] sínum nr. 30/2020 en þrátt fyrir það halda stofnanir enn fram sömu skoðun.  Auk þess hafa 2 nefndir ráðherra fengið það hlutverk að fanga vindinn inn í rammaáætlun sem bendir til þess að vindur sé alls ekki inni í rammanum. 

Ef vilji Alþingis er að fella vind undir rammaáætlun og ákveðin svæði verða fyrir valinu, hvernig á þá að gæta hlutlægni og jafnræðis við úthlutun nýtingarleyfa á þessum völdu svæðum „vindrammaáætlunar“ til úthlutunar á takmörkuðum gæðum til atvinnustarfsemi á samkeppnismarkaði, að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða í almannaþágu? Engin lög í landinu leysa úr þessu vandamáli.  Hvernig á að takmarka eignarétt eins, en hygla öðrum vegna stjórnvaldsákvarðana til nýtingar vindorku í eignarlandi, sem eigandi hefði, eftir atvikum, ekki forgang að?

Heimilt er að takmarka stjórnarskrárvarin rétt með vísan í ríka almannahagsmuni. Eru almannahagsmunir svo ríkir í þessu máli að setja verður lög um vindorku sem í raun taka eignarnámi t.d. landsvæði sem eru í einkaeigu með tilheyrandi tilkostnaði og skaðabótakröfu á ríkissjóð?  Er slíkt þjóðhagslega hagkvæmt?  Hvers vegna nær rammaáætlun yfir lönd í einkaeigu sem varin eru í stjórnarskrá?

Er mögulegt að láta rammaáætlun ná yfir vindorku eða er það lagatæknilega ómögulegt?

Að lokum má geta þess að hugmyndin að rammaáætlun er komin frá Noregi sem lagði þetta tæki niður árið 2016. Nokkru seinna reyndu þau að setja vindinn í ramma en féllu frá því árið 2019. Vindorkan hefur því aldrei verið í rammaáætlun þeirra.


[1] Sæmundur Sæmundsson forstöðumaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs. Viðskiptaþing 2023.[2] https://uua.is/urleits/30-2020-storm-orka-ehf/
[3] LOGOS. “Minnisblað”  Efni: Virkjun vindorku og lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. 11. nóvember 2019

Leave a comment